Vilja Ross Brawn til bjargar

Ross Brawn.
Ross Brawn.

Forstjóri Fiat hefur bent á fyrrverandi tæknistjóra Ferrariliðsins, Ross Brawn, sem æskilegan aðila til að hjálpa til við að  rífa liðið upp úr lægð og koma því aftur á toppinn í formúlu-1.

Sergio Marchione hefur látið lélegt gengi Ferrari undanfarin ár og misseri til sín taka og vill fá Brawn til að leggja á ráðin um endurskipulagningu og uppstokkun í herbúðum Ferrari á Ítalíu.

Fiatstjórinn hefur ekki aðeins blandað sér í störf liðsstjórans Maurizio Arrivabene heldur hefur hann einnig fundað með helstu verk- og tæknifræðingum Ferrari í þeim tilgangi að finna út hverjir möguleikar keppnisbílsins séu og hvernig hraða megi þróun hans er nýtist í keppni.

Ross Brawn er sagður hafa gefið Ferrari afsvar við því að koma til mikilla starfa í herbúðunum í Modena á Ítalíu. Hann yfirgaf vettvang íþróttarinnar í árslok 2013 og hefur notið lífsins síðan í kyrrð og ró.

Hann útilokar þó ekki að taka að sér takmörkuð verkefni en segir ekki til greina að vinna eins og áður fyrri í 24 tíma á sólarhring sjö daga vikunnar, eins og hann orðaði það. Þá hefur hann lýst stuðningi við núverandi tæknistjóra liðsins, James Allison, og segir hann búa yfir þekkingu og getu til að koma Ferrari aftur á toppinn, liðið þurfi einungis að leggja honum í hendur nauðsynleg tól til þess.

Maurizio Arrivabene þarf að þola mikil afskipti Fiatstjórans Sergio Marchione …
Maurizio Arrivabene þarf að þola mikil afskipti Fiatstjórans Sergio Marchione af Ferrariliðinu. AFP
Kimi Räikkönen á Ferrari í Silverstone á dögunum.
Kimi Räikkönen á Ferrari í Silverstone á dögunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert