Rosberg réði ferðinni

Nico Rosberg á ferð í Búdapest í dag.
Nico Rosberg á ferð í Búdapest í dag. AFP

Nico Rosberg hjá Mercedes ók hraðast á seinn æfingu dagsins í Búdapest, en þar fer ungverski kappaksturinn fram á sunnudag. Daniel Ricciardo hjá Red Bull  ók næsthraðast og þriðja besta tíma átti Sebastian Vettel hjá Ferrari. Voru þeir 0,6 og 0,9 sekúndum lengur með hringinn en Rosberg.

Lewis Hamilton varð í aðeins í fimmta sæti, 1,5 sekúndum á eftir Rosberg. Hann hefur þó það sér til afsökunar, að hafa flogið út úr brautinni og hafnað á öryggisvegg. Kom hann bílnum heim í bílskúr en vegna höggsins varð að taka hann í sundur og endurbyggja ef skemmdir leyndust.

Höggið var og það mikið að Hamilton varð að gera sér ferð í læknamiðstöð brautarinnar þar sem gengið var úr skugga um að hann hefði ekki hlotið skaða af sjálfur.

Eftir fyrstu lotur í brautinni munaði aðeins þúsundasta úr sekúndu á Mercedesfélögunum. En ekkert varð úr rimmu um hröðustu hringi þar sem Hamilton féll úr leik eftir aðeins 15 mínútur af hinni 90 mínútna löngu æfingu. 

Í sætum fjögur til tíu urðu - í þessari röð - Max Verstappen á Red Bull, Hamilton, Kimi Räikkönen á Ferrari, Fernando Alonso og Jenson Button á McLaren, og Nico Hülkenberg og Sergio Perez á Force India.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert