Settu Hamilton stólinn fyrir dyrnar

Lewis Hamilton er ekki mikið fyrir að láta segja sér …
Lewis Hamilton er ekki mikið fyrir að láta segja sér fyrir verkum. Stjórar Mercedesliðsins lögðu honum engu að síður línurnar fyrir æfingarnar í Hockenheim í dag. AFP

Ástæða þess að Nico Rosberg ók mun hraðar en Lewis Hamilton á æfingum í Hockenheim í dag kann að vera sú, að stjórar Mercedes settu heimsmeistaranum ákveðin skilyrði við aksturinn í dag. 

Tilgangurinn með því var að koma í veg fyrir að Hamilton yrði ávíttur fyrir að virða ekki ytri mörk brautarinnar. Hann væri með tvær áminningar í farteskinu og sú þriðja myndi þýða afturfærslu á rásmarki um 10 sæti.

Áminningarnar tvær hlaut Hamilton annars vegar fyrir að bakka bíl sínum í bílskúrareininni í Barein og fyrir að sneiða inn fyrir brautarstólpa  í Sotsjí í Rússlandi. Vegna strangrar reglu um akstur út úr fyrstu beygju brautarinnar í Hockenheim og mikillar tilhneigingar ökumanna til að fara þar út fyrir braut gripu stjórnendur Mercedesliðsins í taumana og lögðu Hamilton línurnar um hvernig hann skyldi aka á æfingunum í dag. Það staðfestir tæknistjórinn Paddy Lowe.

Þegar upp var staðið var Hamilton 0,4 sekúndum lengur með hringinn í Hockenheim en liðsfélaginn Rosberg. Höfðu ökumenn Mercedes engu að síður umtalsverða yfirburði gagnvart öðrum liðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert