Hvernig væri formúlan án Mercedes?

Ricciardo (l.t.v.) væri efstur ef lið Lewis Hamilton (í miðjunni) …
Ricciardo (l.t.v.) væri efstur ef lið Lewis Hamilton (í miðjunni) væri ekki í keppni. Max Verstappen (l.t.h.) væri í fjórða sæti í keppni ökumanna. AFP

Hvernig væri staðan í formúlu-1 um þessar mundir ef ekkert væri Mercedesliðið í keppni? Að slíku spyrja þeir sem velta því fyrir sér hvort drottnun þýska bílsmiðsins sé góð eða vond.

Margsinnis á árinu hefur verið um skemmtilega keppni í formúlunni þrátt fyrir algjöra drottnun Mercedesliðsins, sem útaf fyrir sig gæti talist umkvörtunarefni. En hvernig liti dæmið út ef Nico Rosberg og Lewis Hamilton væru ekki í keppni?

Nú þegar áhugamenn bíða spenntir eftir næsta kappakstri, í Belgíu um næstu helgi að loknu mánaðarlöngu hléi, hefur einn slíkur reiknað út hvernig staðan væri í keppni ökumanna án þeirra.

Mercedesmenn hafa unnið öll mót ársins nema eitt og njóta mikils forskots í stigakeppni bæði ökumanna sem bílsmiða. Með því að strika þá út úr myndinni væri Daniel Ricciardo hjá Red Bull í efsta sæti með 193 stig. Væri hann með 24 stiga forskot á Sebastian Vettel hjá Ferrari. Kimi Räikkönen (164) væri svo þriðji og einungis fimm stigum á eftir liðsfélaga sínum, Vettel. Max Verstappen hjá Red Bull væri svo með 155 stig í fjórða sæti.

Í keppni liðanna væri Red Bull á toppnum með 19 stigum meira en Ferrari, 352:333. Í þriðja sæti væri svo Williams með 157 stig, eða langt á eftir toppliðunum tveimur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert