Bað Räikkönen afsökunar

Eiginhandaráritun Sebastian Vettel vildu margir unnendur Ferrari fá í Monza …
Eiginhandaráritun Sebastian Vettel vildu margir unnendur Ferrari fá í Monza í dag. AFP

Sebastian Vettel hefur beðið liðsfélaga sinn Kimi Räikkönen afsökunar á samstuði þeirra í fyrstu beygju belgíska kappakstursins síðastliðinn sunnudag.

Räikkönen og Vettel hófu keppni af annarri ráslínu en áttu í útistöðum og árekstri við Max Verstappen hjá Red Bull sem freistaði þess að laga stöðu sína eftir misheppnaða ræsingu.

„Þetta var óheppni, það er ekki mikið sem við þurfum að segja,“ sagði Räikkönen. „Seb baðst afsökunar og ég svaraði með því að segja OK. Lífið heldur svo bara áfram.“

Vettel sagði ef horft væri til baka þá hefði hann getað gefið Räikkönen meira pláss. „Það er ljóst hvað gerðist. Ég hélt að Kimi væri á innri línunni en svo kom í ljós að bílarnir voru þrír. ´Svigrúmið sem ég gaf Kimi var ekki fyrir þrjá bíla. Á endanum vorum við með þrjá bíla í beygjunni í plássi sem ekki var fyrir þrjá. Maður sá ekki mikið í speglunum, eina sem ég sá var að Kimi var þar og ég aðeins á undan.

Ef þessar aðstæður kæmu upp aftur og ég væri meðvitaður um þær þá hefði ég vitaskuld gefið meira svigrúm. Og að minnsta kosti myndi ég komast gegnum beygjuna. Ég vissi ekki af bílunum báðum innan við mig á þeirri stundu. Það var leitt fyrir okkur alla þrjá,“ segir Vettel.

Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen skullu saman í fyrstu beygju …
Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen skullu saman í fyrstu beygju í Spa-Francorchamps. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert