Ferraristjóri varar menn sína við

Sergio Marchionne gerir miklar kröfur til liðsmanna Ferrari.
Sergio Marchionne gerir miklar kröfur til liðsmanna Ferrari. AFP

Ferrariforstjórinn Sergio Marchionne segist ekki munu lengur þola undirmálsárangur af hálfu Ferrariliðsins. Var hann ómyrkur í máli eftir belgíska kappaksturinn.

„Þeir sem sýna ekki árangur verða að taka pokann. Sú regla gildir fyrir alla, líka mig,“ sagði Marchionne, augljóslega óhress með ófarir ökumanna Ferrari sem skullu saman í fyrstu beygju kappakstursins og urðu þar með af verðlaunasætum.

Er ljóst, að forstjórinn herðir þumalskrúfurnar að forsvarsmönnum keppnisliðsins og ökumönnunum. Skili menn ekki því besta sem hægt er verði þeir að fara frá liðinu.

Kimi Räikkönen og Sebastian Vettel virtust til alls líklegir í kappakstrnium eftir að hafa slegist af alvöru um ráspólinn í Spa-Francorchamps. Marchionne fagnaði þeim framförum en sagði augljóslega þyrfti meira til. „Önnur rásröðin í Belgíu er ekki svo slæmt,“ sagði hann.

Hann sagði að á herðum allra liðsmanna Ferrari hvíldi sú skylda að þeir þyrftu að ná þeim árangri sem liðið hefði sett sér að ná.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert