Hvert mót eins og bikarúrslit

Nico Rosberg (t.h.) fagnar sigrinum í Spa-Francorchamps. Annar varð Daniel …
Nico Rosberg (t.h.) fagnar sigrinum í Spa-Francorchamps. Annar varð Daniel Ricciardo (t.v.). AFP

Nico Rosberg hjá Mercedes segist munu ganga til hvers og eins móts sem eftir er vertíðar sem væru þau bikarúrslit. Freistar hann þess í ár að leggja liðsfélaga sinn Lewis Hamilton að velli í titilslagnum.

Rosberg náði um skeið 43 stiga forystu á Hamilton með sigri í fyrstu fjórum mótum ársins. Eftir að báðir féllu úr leik vegna innbyrðis áreksturs í Barcelona í vor hefur dæmið snúist við og Hamilton unnið sex mót af sjö. Náði hann 19 stiga forskoti á Rosberg sem tókst þó að minnka það niður í níu stig með sigri í belgíska kappakstrinum síðastliðinn sunnudag.

Segist Rosberg vona að hann geti byggt á þeim sigri í kappakstrinum í Monza á Ítalíu um helgina. Í fyrra varð hann að hætta keppni vegna bilunar. Var hann í þriðja sæti er hann féll úr leik. Rosberg hefur aldrei hrósað sigri í Monza. Því vill hann breyta á sunnudaginn kemur, rétt eins og í Belgíu en sigur hans í Spa-Francorchamps var sá fyrsti þar á ferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert