Hestöflin hugsanlega yfir þúsundið

Nico Rosberg hafði úr eittþúsund hestöflum að spila í tímatökunni …
Nico Rosberg hafði úr eittþúsund hestöflum að spila í tímatökunni í Singapúr. AFP

Hinar forþjöppuðu tvinnvélar formúlubílanna hafa sætt gagnrýni fyrir máttleysislegan hávaða frá því þær komu til sögunnar 2014. Í þeim efnum standa þær langt að baki vélum fyrir daga sex strokka vélarinnar.

En nýjustu vélarnar skortir þó hvergi aflið og þrátt fyrir ónógan hávaða að mati margra þá eru þær líklega mun öflugri nú en í eins og tvo til þrjá áratugi.  

Þannig eru núverandi vélar mun aflmeiri en V8-vélarnar sem þær leystu af hólmi. Flugu þær auðvelda upp fyrir 900 hestöflin og nú þykir margt benda til að vélar formúlubíla Mercedes skili um 1.000 hestöflum í tímatökunni.   

Vitaskuld þaga sérfræðingar Mercedes þunnu hljóði varðandi þessi mál því þeir vilja umfram allt halda upplýsingum um aflrásir bílanna leyndum. Heimildarmenn með góð tengsl inn fyrir veggi Mercedes segja þó, að vélin sem kom til sögunnar í belgíska kappakstrinum hafi skilað 980 hestöflum.

Vélarframleiðandi sem ekki er lengur þátttakandi í formúlu-1 mun hafa sinnt mælingum í Singapúr til að kanna framfarir formúluvélanna. Með útreikningum á hljóðmælingum á vél og rafhleðslunni sem nýta má til aukinnar hröðunar út úr beygjum hefur hann komist að því að hámarksafl Mercedesbílanna í Singapúr hafi verið 1.000 hestöfl. Átti það sér stað undir lok  tímatökunnar þegar ökumenn höfðu 50 sekúndna aflauka úr að spila vegna sérstillingar aflrásarinnar. Þessi sérlega vélarstilling er sögð 80 hestafla virði. 

Í belgíska kappakstrinum hafði hvorugur þeirra Felipe Massa og Valtteri Bottas hjá Williams úr þessu viðbótarafli Mercedesvélarinnar að spila. Ökumenn Mercedes voru þar 0,3 sekúndum fljótari í tímatökunni en Williamsþórarnir.

Miðað við að orkuheimtukerfi bílanna skili 160 hestöflum þá er grunnvélin hjá Mercedes að skila um 820 hestöflum. Það í sjálfur sér er einkar athyglisvert í ljósi þess að slagrými vélarinnar er aðeins 1,6 lítrar og bensínflæði til hennar eru þröngar skorður settar. Má það ekki nema meiru en sem nemur 100 kílóa streymi við 10.500 snúninga. Aukinheldur er bannað að brúka við smíði hennar ýmsar framandi efnablöndur sem ella gætu aukið afl hennar enn frekar. 

Og miðað við að aflaukinn sé ekki til staðar í kappakstrinum sjálfum bendir allt til þess að vélar Mercedes einar og sér skili um 750 hestöflum í sjálfum kappakstrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert