Vettel verður að vinna fyrir sætinu

Maurizio Arrivabene á stjórnborði Ferrari í Monza.
Maurizio Arrivabene á stjórnborði Ferrari í Monza. AFP

Það er ekkert gefið að Ferrari framlengi samninga við Sebastian Vettel þegar núverandi ráðningarsamningur hans rennur út á næsta ári, 2017.

Á annan veg verða yfirlýsingar liðsstjórans Maurizio Arrivabene ekki skyldar, en hann sagði í viðtali við ítalska íþróttarás Sky Sports-stöðvarunnar, að Vettel yrði að vinna fyrir áframhaldandi starfi hjá Ferrari.

Arrivabene var spurður hvort það myndi ekki virka sem hvatning á Vettel að skila toppárangri í keppni að fá framlengingu á samninginn með ríflegum fyrirvara. Þeirri taktík hefði Ferrari beitt á dögum Michael Schumacher hjá liðinu.

Liðsstjórinn kvaðst ekki telja að slíkar ráðstafanir myndu virka á Vettel og sagði að hann yrði að sýna að hann væri verðugur nýs samnings þegar kæmi að því að ræða ráðningarmál hans einhvern tíma á næsta ári.

„Ég held ekki að við getum aukið á sjálfstraust hans með endurnýjun snemma. Það sem virkaði á Michael [Schumacher] virkar ekki endilega á Sebastian. Hann þarf bara að einbeita sér að bílnum. Stundum hefur hann áhuga á öllu og þurfum við stundum að endurstilla athygli hans, minna hann á að einblína á aðal hlutverkið,“ segir Arrivabene.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert