Farinn á tveimur sekúndum

Þjónustusveit Red Bull er með eindæmum skilvirk og snör í …
Þjónustusveit Red Bull er með eindæmum skilvirk og snör í snúningum.

Þjónustusveit Red Bull hefur átt marga góða stundina og reynst óheyrilega fljót að skipta um dekk á bílum ökumanna sinna. Einna minnisstæðastur er henni bandaríski kappaksturinn 2013.

Þar gerðist ekkert minna en það, að frá því Mark Webber nam staðar á þjónustusvæðinu og þar til hann rauk af stað á ný liðu ekki nema 1,923 sekúndur, samkvæmt eigin mælingum liðsins.

Sló Webber þar eigið liðsmet sem hljóðað hafði upp á 2,05 sekúndur og var sett fyrr á keppnistíðinni 2013. Mun það hafa verið í fyrsta sinn í sögunni sem dekkjaskipti eiga sér stað á innan við tveimur sekúndum.

Þessara afreka sinna minnist Red Bull þessa dagana með nýrri heimildarmynd - The History of the Pit Stop: Gone in 2 Seconds - sem frumsýnd verður á heimasíðu liðsins og rebull.tv í dag.

Þjónustustoppin hafa tekið miklum framförum hjá öllum liðum undanfarið ár og í fyrra. Er það þakkað nýrri tækni. Eru menn sammála um að handan við hornið sé að þau verði ekki lengri en 1,7 til 1,8 sekúndur.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert