Segir Ricciardo þann besta

Daniel Ricciardo einbeittur í bíl sínum.
Daniel Ricciardo einbeittur í bíl sínum.

Fernando Alonso nefnir hvorugan ökumann Mercedesliðsins þegar hann er spurður hver sé besti ökumaður formúlu-1 í dag, en annar hvor þeirra verður heimsmeistari ökumanna í ár, þriðja árið í röð.

„Ég myndi segja það vera [Daniel] Ricciardo núna vegna þess hvernig hann gengur til leiks og helgar sig akstrinum út í gegn,“ sagði Alonso við bresku sjónvarpsstöðina BBC. „Þú sérð hann ekki gera nein mistök þegar þú ert í návígi við hann. Til framúraksturs er hann líklega sá besti. Leggi hann til atlögu er útkoman 99% sú sem hann vildi ná,“ segir Alonso.

Nokkrum sinnum glímdu þeir Ricciardo hart á vertíðinni 2014. Þar á meðal í þýska kappakstrinum í Hockenheim og þeim ungverska viku seinna, en þar tók Ricciardo fram úr Alonso undir lokin og vann sinn annan kappakstur á ferlinum.

Ricciardo hefur í þrjú ár í röð orðið þriðji í keppni ökumanna, á eftir þeim Lewis Hamilton og Nico Rosberg hjá Mercedes. „Árið 2014, með Vettel sem liðsfélaga, sýndi hann ótrúlegan árangur og var fremri á öllum sviðum, í akstri, inn að beygjum, í ræsingunni, þjónustustoppum, í framúrakstri. Hann vann Vettel svo auðveldlega,“ sagði Alonso.   

Eftir að hafa heyrt af ummælum spænska ökumannsins sagði Ricciardo að það væri ekki erfitt að verða hreykinn. „Þetta er frábært að heyra, geri ég ráð fyrir. Ég ætla ekkert að skrökva, maður getur ekki þóst ekki heyra svona um mæli. Áður en ég kom til skjalanna í íþróttinni var hann þegar búinn að vinna heimsmeistaratitilinn tvisvar og var einn af þessum stóru. Þetta er náungi sem maður lítur upp til og langar að afreka sem hann hefur gert.

Mér finnst sem ég hafi öðlast mikla virðingu og traust af hans hálfu árið 2014. Við háðum nokkrar frábærar orrustur þá og það er svalt að hann er á því líka. Það er skemmtilegt að öðlast viðurkenningu nokkurs konar goðsagnar íþróttarinnar,“ sagði Ricciardo.

Alonso (t.v.) og Ricciardo í rimmu á kappakstursbrautinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert