Fagna 40 árum í formúlu-1

Claire Williams kynnir ökumenn Williams 2017 til leiks í vikunni.
Claire Williams kynnir ökumenn Williams 2017 til leiks í vikunni. AFP

Williamsliðið hefur ákveðið að keppnisbíll þess á næsta ári fái tegundarheitið FW40  í tilefni þess að árið 2017 verður hið fertugasta sem það tekur þátt í íþróttinni.

Williams er meðal annáluðustu liða formúlunnar, ekki síst vegna langlífi þess, en liðið hefur ætíð verið sjálfstætt einkalið og ekki tilheyrt bílafyrirtækjum eða risastórum iðnaðarsamsteypum.

Hefur það 117 sinnum fagnað sigri í mótum formúlu-1 og sjö ökumenn þess hafa hreppt heimsmeistaratitil ökumanna í greininni, síðast árið 1997 er Jacques Villeneuve vann titilinn.

Liðið stofnuðu þeir Frank Williams og Patrick Head á sínum tíma og er sá fyrrnefndi enn liðsstjóri, alla vega að nafninu til. Fyrir þremur árum rúmum tók þó dóttir hans Claire Williams að mestu við rekstrarstjórninni.

„Fyrir 40 árum skópu Frank og Patrick lið sem átti eftir að verða eitt af goðsagnarliðum formúlunnar – Williams. Við erum einstaklega stolt af því sem við höfum afrekað á langri og glæsilegri sögu liðsins. Við höfum upplifað alsælu sem fylgir æðsta sigri greinarinnar en níu sinnum hefur Williams unnið heimsmeistaratign bílsmiða og skapað sjö heimsmeistara; Alan Jones, Keke Rosberg, Nelson Piquet, Nigel Mansell, Alain Prost, Damon Hill og Jacques Villeneuve,“ segir Claire Williams.

Á fimmtudag kynnti hún hverjir yrðu ökumenn Williams á næsat ári. Felipe Massa dregur sig í hlé og í stað hans kemur 18 ára kanadískur ökumaður, Lance Stroll. Keppir hann við hlið Valtteri Bottas.

„Formúla-1 hefur breyst gríðarlega síðustu 40 árin en eitt er alveg eins nú og þá og allar götur síðan; ástríðan fyrir akstursíþróttum. Við ætlum að rækta hana, afrek okkar og arfleifð með öllum sem komið hafa að máli um dagana – fylgjendur okkar, samstarfsaðilar, fjölmiðlar og öllum vinum okkar sem við höfum eignast á þessum 40 árum,“ bætti liðsstjórinn við.

Claire Williams með ökumönnum Williamsliðsins á næsta ári. Lance Stroll …
Claire Williams með ökumönnum Williamsliðsins á næsta ári. Lance Stroll til vinstri og Valtteri Bottas til hægri. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert