Hockenheim úr leik

Frá keppni í Hockenheim í sumar. Hér er Nico Rosberg …
Frá keppni í Hockenheim í sumar. Hér er Nico Rosberg á ferð á heimavellli. AFP

Hockenheim er úr leik sem keppnisstaður formúlu-1 á næsta ári, að sögn framkvæmdastjóra brautarinnar, Georgs Seiler. 

Seiler segist ekki hafa náð samningum við alráð formúlunnar, Bernie Ecclestone, og ekki yrði farið út í mótshald er hefði í för með sér mikið fjárhagslegt tap. Þetta þýðir að óbreyttu að mótum næsta árs fækkar í 20.

Seiler sagði að tilraunir til samninga við Ecclestone hafi staðið yfir vikum saman. „Við fengum ekkert tilboð sem ekki fól í sér mikla fjárhagslega áhættu,“ hefur vikuritið Auto Bild eftir honum.

„Þetta eru vonbrigði en ekkert sem á óvart kemur,“ segir Seiler einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert