Minni munur - spennan magnast

Munurinn á Lewis Hamilton (t.v.) og Nico Rosberg (t.h.) á …
Munurinn á Lewis Hamilton (t.v.) og Nico Rosberg (t.h.) á seinni æfingunni í Abu Dhabi var nær enginn. AFP

Aðeins munaði 59 þúsundustu úr sekúndu á Lewis Hamilton og Nico Rosberg á seinni æfingunni í Abu Dhabi í dag. Sem á fyrri æfingunni var Hamilton fetinu framar á þeirri seinni, en spennan vegna titilslagsins vex.

Hamilton kvartaði undan meðfærileika bílsins framan af æfingunni, sagði drifrásina ekki virka sem skyldi. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann bætti sig jafnt og þétt. Undir lokin líktu ökumenn eftir tímatökum og settu þá sína bestu brautartíma.

Sebastian Vettel hjá Ferrari átti þriðja besta hringinn en var 0,269 sekúndur frá tíma Hamiltons. Hann varð að hætta akstri í miðri braut er 10 mínútur voru eftir. Lék grunur á að gírkassinn hefði bilað.

Max Verstappen og Daniel Ricciardo hjá Red Bull urðu í fjórða og fimmta sæti en á þeim munaði einungis einum þúsundasta úr sekúndu.

Kimi Räikkönen hjá Ferrari átti sjötta besta hringinn, landi hans Valtteri Bottas hjá Williams þann sjöunda, og Force India ökumennirnir Sergio Pérez og Nico Hülkenberg áttunda og níunda besta.

Felipe Massa hjá Williams fyllti fyrsta tuginn en kappaksturinn um helgina verður hans síðasti í formúlu-1. Næstir á eftir honum urðu McLarenmennirnir Fernando Alonso og Jenson Button. Munaði tveimur sekúndum á bestu hringjum Buttons og Hamiltons.

Lewis Hamilton á seinni æfingunni í Abu Dhabi í dag.
Lewis Hamilton á seinni æfingunni í Abu Dhabi í dag. AFP
Lewis Hamilton í Yas Marina brautinni í Abu Dhabi í …
Lewis Hamilton í Yas Marina brautinni í Abu Dhabi í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert