Franski kappaksturinn aftur á ferð

Stoffel Vandoorne við dekkjaprófanir á McLarenbílnum í Paul Ricard-brautinni í …
Stoffel Vandoorne við dekkjaprófanir á McLarenbílnum í Paul Ricard-brautinni í Le Castellet í Suður-Frakklandi. mbl.is/afp

Franski kappaksturinn í formúlu-1 er væntanlegur á mótskrá greinarinnar árið 2018, að sögn útvarpsstöðvarinnar Europe 1. 

Þar er því haldið fram að skírt verði formlega frá endurkomu kappakstursins á blaðamannafundi hjá „Bílaklúbbi Frakklands“ næstkomandi mánudag.

Kappaksturinn 2018 fer ekki fram í Magny-Cours, sem var heimili hans í seinni tíð, heldur í annáluðu brautinni frægu við suðurströndina, Paul Ricard-brautinni í Le Castellet.

Héraðið Provence-Alpes-Côte d’Azur (PACA)  stendur að baki kappakstrinum ásamt sýslunni Var. Leiðtogi PACA er fyrrverandi kappakstursmaður, Christian Estrosi, sem keppti m.a. í Evrópumótunum í formúlu-3 árið 1984.  Þá mun borgin Toulon leggja fjármagn til keppnishaldsins, en tilgangur mótshaldsins er að vera nýr drifkraftur hagvaxtar í héraðinu.

Vilja aðstandendur franska kappakstursins í Paul Ricard-brautinni að hann fari fram í lok ágúst, þegar sumarfríum er að ljúka í Frakklandi.

Síðast fór franski kappaksturinn fram í Magny-Cours árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert