Mercedes að spá í Alonso

Fernando Alonso er maður sem Mercedes vill fá í stað …
Fernando Alonso er maður sem Mercedes vill fá í stað Nico Rosberg. AFP

Mercedesstjórinn Toto Wolff játar að lið hans sé að kanna möguleika á því að fá Fernando Alonso í sætið sem Nico Rosberg skilur eftir sig.

Alonso er „ökumaður sem ég met mikils“ segir Wolff við Sky Sports stöðina. Og þótt hann sé samningsbundinn McLaren út 2017 og sagður ánægður þar segist Wolff ekki útiloka að ráða hann.

„Hann er maður sem verður að skoða. Ég ber mikla virðingu fyrir honum. Í honum fara saman hæfileikar, hraði og reynsla - það er allt þarna. En hann er með samning við McLaren og við verðum að vega og meta alla aðra kosti með tilliti til þess.“

Rosberg tilkynnti öllum á óvart í byrjun síðustu viku að hann væri hættur keppni í formúlu-1. Því er laust sæti við hliðina á Lewis Hamilton.

Wolff tók skýrt fram, að það yrði enginn ökumaður númer eitt í liðinu. „Það verður óbreytt sem verið hefur, allir jafnir.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert