Sér eftir liðsfyrirmælunum

Nico Rosberg (t.h.) og Toto Wolff.
Nico Rosberg (t.h.) og Toto Wolff. AFP

Mercedesstjórinn Toto Wolff segist játa, að hann sjái eftir þeim fyrirmælum sem Lewis Hamilton hafi verið gefin í lokamóti ársins, í Abu Dhabi. 

„Við hefðum átt að bregðast öðru vísi við,“ segir Wolf. Er skammt var eftir kappakstursins freistaði Hamilton að hægja smátt og smátt ferðina á köflum og hjálpa þannig öðrum ökumönnum að komast í tæri við Rosberg og taka fram úr honum.

Var Rosberg með 12 stiga forskot fyrir lokamótið og hefði þurft að falla niður í fjórða sæti til að Hamilton ynni titilinn. Brögð breska ökumannsins gengu ekki upp; Rosberg varð annar í mark og vann titil ökumanna. 

Hræddir meðal annars um að Sebastian Vettel, á hagstæðari dekkjum, myndi komast fram úr og jafnvel stela sigri skipuðu Mercedesstjórarnir, þar á meðal tæknistjórinn Paddy Lowe, Hamilton að bæta í hraðann. Hamilton kaus hins vegar ítrekað að hunsa fyrirmælin.

„Í hita leiksins taka menn stundum ákvarðanir sem eru rangar,“ sagði Wolff við Sky-stöðina er hann fór yfir vertíðina. „Eftir á að hyggja hefðum við átt að tala öðruvísi og leyfa þeim  [Hamilton and Rosberg] að keppa eins og þeim þótti viðeigandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert