Verstappen tók oftast fram úr

Max Verstappen tók oftast fram úr á árinu en hér …
Max Verstappen tók oftast fram úr á árinu en hér er hann á fleygiferð í lokamóti ársins, í Abu Dhabi. AFP

Max Verstappen hjá Red Bull tók fram úr oftar en allir aðrir ökumenn í mótum ársins í formúlu-1. 

Samkvæmt gögnum sem dekkjaframleiðandinn Pirelli hefur tekið saman um keppnistíðina 2016 tók Verstappen 78 sinnum fram úr keppinautum. Svo oft hefur enginn ökumaður tekið fram úr í keppni frá árinu 1983, en ekki eru til tölfræðilegar upplýsingar um framúrakstur fyrir þann tíma.

Þar af tók Verstappen 18 sinnum fram úr sem ökumaður Toro Rosso og síðan 60 sinnum undir stýri bíls Red Bull. Átti hann því stóra hlutdeild í því að Red Bull skyldi oftar hafa tekið fram úr en önnur lið.

Alls tóku bílar Red Bull 136 sinnum fram úr bílum keppinautanna. Af þeim átti Daniel Ricciardo 61 framúrakstur, Verstappen 60 og Daniil Kvyat 15.

Alla vertíðina sáu menn 866 framúrtökur, að meðaltalil 41,2 í kappakstri. Er það mikil viðbóta frá í fyrra er skráðar voru 509 framúrtökur.

Tíðindamestur var kínverski kappaksturinn í Sjanghæ en þar áttu 128 farmúrtökur sér stað. Lewis Hamilton hjá Mercedes setti met í því móti, tók 18 sinnum fram úr öðrum bílum. Skýringin á því er sú að hann hóf keppni aftastur. Flestar framúrtökur í rigningarkeppni áttu sér stað í Sao Paulo í Brasilíu, eða 64.

Þá fer Fernando Alonso hjá McLaren frá vertíð ársins með það afrek að hafa unnið sig fram úr fleiri bílum á fyrsta hring en nokkur annar, eða samtals 41 sæti á árinu.

Mótin á árinu voru 21 og hafa aldrei verið fleiri í sögu formúlu-1. Fæstar framúrtökur áttu sér stað í Búdapest í Ungverjalandi eða aðeins 10. Sjaldnast var tekið fram úr Sebastian Vettel hjá Ferrari á árinu. Einungis Verstappen tókst það, á lokametrunum í Sao Paulo. Og aðeins var tekið sjö sinnum fram úr ökumönnum Mercedes, fjórum sinnum fram úr Nico Rosberg og þrisvar fram úr Hamilton.


Max Verstappen öðru vísi klæddur en menn eiga helst að …
Max Verstappen öðru vísi klæddur en menn eiga helst að venjast. Hér mætir han til verðlaunahátíðar FIA í Vínarborg 2. desember. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert