Velja ökumann á nýju ári

Ákvörðun Nico Rosberg að hætta keppni kom eins og þruma …
Ákvörðun Nico Rosberg að hætta keppni kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. AFP

Mercedesliðið mun engan ökumann ráða í stað Nico Rosberg fyrr en eftir áramót. Þetta staðfesti talsmaður liðsins í dag.

Þrátt fyrir þetta hafa stjórar Mercedes verið á þönum eftir heppilegum ökumanni í stað Rosberg sem kom öllum á óvart með því að lýsa því yfir rétt eftir að hafa unnið titilinn, að hann væri hættur keppni og ætlaði að setja fjölskyldulífið í forgang.

Valtteri Bottas hjá Williams og Pascal Wehrlein hjá Manor þykja nú fremstir í röð kandídata í starfið, en fjöldi annarra ökumanna hefur sömuleiðis verið orðaður við sætið lausa.

Red Bull-stjórinn Christian Horner hefur tekið af skarið og lýst því yfir, að Carlos Sainz hjá Toro Rosso sé ekki kandídat. Red Bull hafi fjárfest stórum í honum og ekki komi til greina að leysa  hann undan langtímasamningi við fyrirtækið. Hið sama sé um aðra ökumenn á stalli Red Bull að segja. „Í því væri engin skynsemi að eftirláta helsta keppinauti okkar eitt af helstu vopnum þínum,“ sagði Horner spurður hvort Sainz væri á förum til Mercedes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert