Manor úr sögunni

Pascal Wehrlein á ferð á Manor bíl í keppni 2016.
Pascal Wehrlein á ferð á Manor bíl í keppni 2016. AFP

Manor kappakstursliðið hefur endanlega farið í þrot og rekstrarfélag þess tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptaráðendum mistókst að finna fjárfesta til að koma að liðinu og tryggja framtíð þess.

Starfsfólk rekstrarfélagsins, Just Racing Services Limited (JRSL), hefur verið sent heim og fær borguð laun út janúar. Það var breski auðkýfingurinn Richard Branson sem stofnaði liðið á sínum tíma en var frá upphafi tregur til að verja fjármunum sínum í það.

Þótt liðinu hafi farið mjög fram á kappakstursbrautinni undanfarin tvö ár undir stjórn nýrra eigenda þá skorti árangur sem þurfti til að fá meira verðlauna- og árangurstengdar bónusgreiðslur frá íþróttinni.

Það sem reið liðinu að fullu var að það féll úr hópi 10 bestu liðanna á vertíðinni 2016 en þar með varð það af talsverðum fjármunum frá rekstrarfélagi formúlu-1.

Hvort liðið eigi eftir að snúa aftur til keppni í framtíðinni skal ósagt látið. Félagið
Manor Grand Prix Racing Ltd, sem á þátttökurétt liðsins í formúlu-1, er rekstrarlega óháð JRSL þótt systurfélög séu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert