Massa: rafbílarnir „allt öðruvísi“

Sebastien Buemi á Renault fer hér fremstur í harðri keppni …
Sebastien Buemi á Renault fer hér fremstur í harðri keppni í rafbílaformúlunni (Formula E). AFP

Felipe Massa hefur prófað sig á keppnisbíl úr rafbílaformúlunni en til stóð að hann færi þangað til keppni í ár. Það breyttist þó við brotthvarf Nico Rosberg úr formúlu-1 og leiddi til þess að Massa snýr aftur í formúluna í ár.

Eftir að hafa prófað sig á rafformúlubíl Jaguar var það niðurstaða Massa að rafbíllinn sé „allt öðruvísi“ en keppnisbíll formúlu-1.  Og í raun sé hann allt öðruvísi en allir bílar sem brasilíski ökumaðurinn hefur nokkru sinni spreytt sig á.

Engar upplýsingar hafa verið gefnar um hvar eða hvenær Massa prófaði rafbílinn. Hann var formlega hættur keppni í formúlu-1 en Willliamsliðið kallaði hann á dögunum aftur til starfa vegna brottfarar Valtteri Bottas til Mercedes þar sem hann fyllir skarð Rosberg.  

„Annars konar afl, öðruvísi bremsur, dekk og vængpressa kallar á allt öðruvísi aksturstækni. Ég er ánægður með reynsluna sem ég fékk og það sem ég hef lært á akstrinum. Þetta var mjög skemmtilegur dagur,“ sagði Massa um akstur keppnisbíls rafbílaformúlunnar, formula-e.

Næsti kappakstur í rafbílaformúlunni fer fram í Buenos Aires í Argentínu 18. febrúar næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert