Grunsamleg trjóna á Red Bull

Sama litaútfærsla og löngum áður hjá Red Bull.
Sama litaútfærsla og löngum áður hjá Red Bull.

Red Bull frumsýndi í dag kappakstursbíl sinn fyrir komandi keppnistíð, RB13 eins og hann er nefndur. Á honum vonast liðið til að geta storkað Mercedes í keppninni um titla formúlunnar í ár.

Red Bull varð í öðru sæti í keppni liðanna í formúlu-1 í fyrra og var hið eina er rauf sigurgöngu Mercedes á árinu 2016 er Max Verstappen fór með sigur af hólmi í Barcelona og Daniel Ricciardo í Malasíu en þar varð Verstappen annar.

Bíllinn er eins að útliti hvað litasamsetningu áhrærir og bætist hann í hóp bíla sem skarta svonefndum hákarlsugga aftur úr kæliturni vélarinnar. Trjónan er frábrugðin trjónum annarra bíla og þykir þar með sérdeilis forvitnileg. Virðist sem á henni sé loftinntak á broddinum.

Ricciardo mun aka bílnum við reynsluakstur sem hefst í Barcelona á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert