Räikkönen fljótastur á öðrum degi

Kimi Räikkönen á Ferrari setti besta brautartímann við bílprófanir í Barcelona í dag. Var hann 23 þúsundustu úr sekúndu fljótari með hringinn en Lewis Hamilton hjá Mercedes sem ók aðeins fyrir hádegi.

Räikkönen setti sinn tíma á mjúkum dekkjum en Hamilton á ofurmjúkum, sem eiga að gefa betri tíma. Þriðja besta tímann átti svo Max Verstappen hjá Red Bull. Hann ók best á 1:22,200 mínútum en Räikkönen á 1:20,960 og Hamilton á 1:20,983  mín.

Jafnframt er þetta besti brautartími fyrir fyrstu tvo bílprófanadagana því besti tími gærdagsins mældist 1:21,7 mínútur og var Hamilton þar að verki.

Kevin Magnussen hjá Haas setti fjórða besta tímann (1:22,204) og Esteban Ocon hjá Force India (1:22,509) þann fimmta besta, en báðir settu sinn besta hring á ofurmjúku dekkjunum.

Magnussen ók manna mest í dag, eða 116 hringi sem svarar langleiðina í tvöfalda keppnislengd. Räikkönen fór 108 hringi og landi hans Valtteri Bottas (1:22,986) hjá Mercedes 102. Síðdegið brúkaði hann til að líkja eftir kappakstri með fjölda þjónustustoppa. Átti hann á endanum sjöunda besta tímann, rétt á eftir Daniil Kvyat (1:22,956) hjá Toro Rosso.

Í sætum átta til ellefu á lista yfir hröðustu hringi urðu Jolyon Palmer á Renault (1:24,139), Antonio Giovinazzi á Sauber (1:24,617), Stoffel Vandoorne á McLaren (1:25,600) og Lance Stroll á Williams (1:26,040). Vegna bilana óku þessir fjórir mun minna en aðrir, Stroll t.d. aðeins 12 hringi  og Vandoorne 40.

Palmer missti af morgunæfingunni meðan beðið var eftir kælibúnaði fyrir bremsukerfi Renaultbílsins. Skipta þurfti um vél í McLarenbílnum vegna bilana og einnig í bíl Sauber. Stroll ók ekki eftir hádegi þar sem beðið var nýs framvængs á Williamsbílinn vegna skemmda við útafakstur á morgunæfingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert