Bottas efstur á blaði

Skipt um dekk undir bíl Valtteri Bottas í þjónustuhléi við …
Skipt um dekk undir bíl Valtteri Bottas í þjónustuhléi við reynsluaksturinn í Barcelona í dag. AFP

Valtteri Bottas á Mercedes ók hraðast í Barcelona í dag, á þriðja degi af fjórum í fyrstu reynsluaksturslotu formúluliðanna. Næstfljótastur varð Sebastian Vettel á Ferrari sem ók á ekki eins mjúkum dekkjum og Bottas.

Besti brautartími Bottas mældist 1:19,705 mínútur og er það hraðasti hringur sem næst á fyrstu þremur dögunum í Barcelona. Vettel var 0,2 sekúndum lengur með hringinn, ók á 1:19,952 og tími Ricciardo reyndist 1:21,153 mín.

Fjórða besta tímann átti svo Jolyon Palmer á Renault en allir þessir ökumenn nema Vettel náðu sínum bestu hringjum fyrir hádegishlé.

Vettel lagði að baki 139 hringi í dag, eða rúmlega tvöfalda keppnisvegalengd. Til samans óku Bottas og Lewis Hamilton 170 hringi.

Akstur Ricciardo var takmarkaður við 70 hringi þar sem talsverður tími fór í að rannsaka meinta bilun í útblásturskerfi vélarinnar.

Marcus Ericsson á Sauber og Romain Grosjean á Haasa enduðu í sjötta og áttunda sæti á lista yfir hröðustu hringi en báðir voru þá með mýkstu dekkjagerðina undir bílum sínum. Milli þeirra varð Hamilton á minna mjúkum mjúkdekkjum en hann líkti eftir kappakstri í akstri sínum síðdegis.

Fernando Alonso og McLaren-Honda áttu mun betri dag en í fyrradag. Kláraði Alonso samtals 72 hringi og minnkaði bilið í þá fremstu þótt hann hafnaði á endanum í 10. sæti af 13 á lista yfir hröðustu hringi dagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert