Neydd til að skipta um fjöðrun

Rannsakað verður í Melbourne um helgina hvort Mercedesbílarnir brenni olíu …
Rannsakað verður í Melbourne um helgina hvort Mercedesbílarnir brenni olíu til aflsauka. AFP

Mercedes og Red Bull hafa orðið að breyta hönnun fjöðrunarbúnaðar bíla sinna fyrir kappakstur helgarinnar í Melbourne en grunsemdir léku á að bæði lið hafi verið með ólögmæta fjöðrun í bílunum í fyrra.

Eftir fyrirspurnir og ábendingar frá Ferrari hefur Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) krafið liðin tvö um breytingar áður en 2017-keppnistíðin gengur í garð.

Ferrari spurðist fyrir um það hjá FIA hvort tilteknar útfærslur forspenntrar fjöðrunar væru löglegar. Hermt er að með slíkri fjöðrun megi með kænsku bæta straumfræðilega skilvirkni keppnisbíla.

Snerist fyrirspurn Ferrari um fræðilegar útfærsluhugmyndir sem liðið kvaðst áforma að þróa frekar. Mál manna var hins vegar að tilgangurinn hafi verið að klaga snjalla hönnun fjöðrunarinnar sem Mercedes og Red Bull brúkuðu í fyrra með góðum árangri.

FIA gaf síðan út álit sitt fyrir bílprófanir vetrarins og gerði kýrljóst, að ekki bæri að hann fjöðrunarbúnað í því skyni að bæta straumfræði keppnisbíla. Rannsökuðu tæknimenn sambandsins alla bílana sem voru notaðir til prófananna í Barcelona í byrjun mars. Urðu liðin að sanna fyrir þeim að fjöðrunin væri ekki hönnuð í því markmiði að bæta loftaflsfræðilega skilvirkni bílanna. Það tókst Mercedes og Red Bull ekki að sanna og því urðu liðin að breyta fjöðrun sinni.

Óljós er hvaða afleiðingar þetta mun hafa á frammistöðu liðanna tveggja. Hermt er að Mercedes hafi ekki brúkað útfærsluna snjöllu í öllum mótum í fyrra og hafði hún því enga afgerandi þýðingu fyrir getu bílanna.

Við skoðun á bílum allra liðanna í Melbourne í dag reyndist fjöðrun þeirra allra uppfylla kröfur.

Olíubrennarar

Um helgina verða bílar liðanna einnig skoðaðir með tilliti til þess hvort vélbúnaður þeirra brenni olíu að einhverju leyti olíu. Er það gert vegna fyrirspurnar stjórnenda Red Bull sem gruna Mercedes um að hafa beitt slíku bragði í tímatökum móta í fyrra til að auka afl bíla sinna. Þeir voru algjörlega ósigranlegir í tímatökunum vertíðina út í gegn. Liðsstjórar Mercedes vísa því algjörlega á bug að hafa brúkað ráð sem þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert