Veðja á sigur Vettels

Sebastian Vettel sinnir aðdáendum formúlu-1 í Albertsgarði í Melbourne í …
Sebastian Vettel sinnir aðdáendum formúlu-1 í Albertsgarði í Melbourne í dag. AFP

Lesendur vefsetursins GPUpdate hafa að undanförnu spáð fyrir um sigurvegara fyrsta kappakstursins í formúlu-1 í ár, en hann fer fram í Melbourne í Ástralíu komandi sunnudag.

Niðurstaðan í kjörinu er sú að 28% sögðu að Sebastian Vettel hjá Ferrari muni fyrstur aka yfir marklínuna í Albertsgarði. Rétt á eftir urðu þeir Lewis Hamilton (26%) hjá Mercedes og liðsfélagi Vettels, Kimi Räikkönen (25%).

Bílar Ferrari vöktu mikla athygli við reynslulakstur vetrarins í Barcelona í byrjun mars. Þar voru þeir að staðaldri í toppsætum og sýndu mikinn hraða og mikla snerpu. Voru þeir hraðskreiðastir þegar upp var staðið en bílar Mercedes lögðu hins vegar flesta hringi að baki á æfingunum.

Þetta tríó var alveg sér á parti því í fjórða sæti varð hinn nýi liðsfélagi Hamilton, Valtteri Bottas, en 7% greiddu því atkvæði að hann myndi standa á efsta þrepi verðlaunapallsins í Melbourne. Þar á eftir urðu Max Verstappen (5%) og Daniel Ricciardo (4%) hjá Red Bull. Fimm prósent nefndu einhverja aðra ökumenn.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert