Hamilton í sérflokki

Lewis Hamilton á Mercedes var í sérflokki á seinni æfingunni í Melbourne í morgun, rétt eins og á þeirri fyrri. Á fyrri æfingunni var hann tæplega 0,6 sekúndum fljótari með hringinn en næsti maður og rúmlega 0,5 sekúndum á seinni æfingunni.

Sebastian Vettel á Ferrari kom í veg fyrir að Hamilton og Valtteri Bottas hjá Mercedes sætu í efstu tveimur sætunum á seinni æfingunni, eins og á þeirri fyrri. Ók Hamilton besta hring sinn á 1:23,620 mínútum, eða 0,6 sekúndum hraðar en á fyrri æfingunni. Vettel mældist á 1:24,167 mín., og Bottas á 1:24,176 mín. og bættu báðir sig umtalsvert frá fyrr í morgun.

Í sætum fjögur til tíu urðu Kimi Räikkönen á Ferrari (1:24,525), Daniel Ricciardo á Red Bull (1:24,650), Max Verstappen á Red Bull (1:25,013), Carlos Sainz  á Toro Rosso (1:25,084),  Romain Grosjean á Haas (1:25,436), Nico Hülkenberg á Renault (1:25,478) og  Daniil Kvyat á Toro Rosso (1:25,493)

Fernando Alonso hjá McLaren varð fjórtándi á fyrri æfingunni á 1:27,116 mínútum en bætti sig í 1:26,000 á þeirri  seinni og varð þá tólfti. Munaði 2,4 sekúndum á honum og Hamilton á báðum æfingum.

Æfingunni lauk snemma hjá Verstappen eða eftir aðeins átta hringi. Ók hann harkalega yfir beygjubríkur og út fyrir braut með þeim afleiðingum að bíllinn skemmdist. Fékk því hvorki reynslu af mýkstu dekkjunum og missti af tækifærinu til að líkja eftir kappakstri.

Jolyon Palmer hjá Renault laskaði bíl sinn einnig á seinni æfingunni er hann flaug út úr brautinni eftir að bremsurnar virkuðu ekki sem skyldi í beygju og skall á öryggisvegg.

Haas-liðið greip til þess ráðs á seinni æfingunni að fjarlægja T-væng sinn á kæliturni vélarhúss bílsins þar sem myndavélar sýndu óeðlilega mikla sveigju hans á fyrri æfingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert