Mercedes vann fyrstu ráspólsrimmuna

Lewis Hamilton á Mercedesbílnum í Melbourne í morgun.
Lewis Hamilton á Mercedesbílnum í Melbourne í morgun. AFP

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól kappakstursins í Melbourne, eftir spennandi rimmu við Sebastian Vettel hjá Ferrari og liðsfélaga sinn Valtteri Bottas.

Óhætt er að segja að Bottas hafi látið vel til sín taka í sinni fyrstu tímatöku með Mercedes. Þá fagnar Ferrari því að eiga aftur bíl á fremstu rásröð en fara verður aftur til ársins 2015 að finna dæmi um það, svo slakur var bíll liðsins í fyrra.

Kimi Räikkönen hjá Ferrari varð fjórði, Max Verstappen hjá Red Bull fimmti og Romain Grosjean hjá Haas sjötti. Fyrstu 10 sætin á rásmarkinu á morgun fylla svo Felipe Massa á Williams, þá Tor Rosso liðarnir Carlos Sainz og Daniil Kvyat,og loks heimamaðurinn Daniel Ricciardo á Red Bull, en hann flaug út úr brautinni í fyrri tímatilraun sinni og skall á öryggisvegg. 

Þrír fremstu háðu spennandi glímu í báðum tímatilraunum lokalotunnar og skiptust á að aka hraðast og setja met á einstökum brautarköflum. Settu þeir og allir til skiptist brautarmet þar til yfir lauk. Lokametið átti Hamilton, 1:22,188 mínútur. Vettel var 1:22,456 mín. með sinn síðasta hring og Bottas 1:22,481 mín. Munaði því aðeins 0,3 sekúndum á ökumönnum Mercedes.

Räikkönen setti sinn besta tíma í lokin, 1:23,033 mín., en gat aldrei læst klóm sínum í landa sinn Bottas. Verstappen fór á 1:23,485 mín., Grosjean á 1:24,074, Massa á 1:24,443, Sainz á 1:24,487 og Kvyat á 1:24,512 mín.

Fernando  Alonso hjá McLaren sagði í léttum tón í talstöðinni í eftir sinn besta hring, að nú þyrfti hann á rigningu að halda til að komast lengra, öðru vísi væri það ekki kleift. Komst hann í aðra lotu og endaði í 13. sæti, var þá tveimur sekúndum lengur með hringinn en Hamilton. 

Antonio Giovinazzi sem hljóp í skarðið fyrir Pascal Wehrlein stóð sig vel í frumraun sinni í formúlu-1 með því að klára tímatökuna innan við 0,2 sekúndum á eftir liðsfélaga sínum Max Ericsson.

Kanadíski nýliðinn Lance Stroll hjá Williams  þurfti að fá nýjan gírkassa eftir æfingar gærdagsins og hefur því jómfrúarkappakstur sinn af aftasta rásstað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert