Ódýrari og háværari vélar 2021

Vélar formúlubílanna breytast aftur 2021.
Vélar formúlubílanna breytast aftur 2021. AFP

Fulltrúar formúluliðanna og vélaframleiðendur hafa náð „breiðu samkomulagi“ um að gera vélar keppnisbílanna einfaldari, ódýrari og háværari frá og með árinu 2021, en þá renna núverandi reglur um formúluvélarnar út.

Frá 2014 hafa 1,6 lítra V6-vélar verið í bílunum sem endurnýtt hafa hemlunarkrafta bílana til aflsaukningar, allt í þágu vistvænni bíl. Tilgangurinn með því var að formúlan fengi á sig „grænna“ yfirbragð. 

Fyrir helgi hittust fulltrúar liðanna og vélarframleiðenda - bæði núverandi og svo annarra sem standa utan íþróttarinnar sem stendur - til að fara yfir málin með tilliti til framtíðarinnar. Fundinum stýrði leiðtogi Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA), Jean Todt.

Niðurstaðan var fjórþætt samkomulag þar sem kveðið er á um löngun formúlu-1 til að vera hæsta stig kappaksturstækni og sem tilraunastofa til þróunar tækni sem nýttist við framleiðslu venjulegra bíla. Ennfremur að leitast við að vélar framtíðarinnar verði öflugar en einfaldari og ódýrari í þróun og framleiðslu og vélarhljóðin meiri. Loks lýsir samkomulagi vilja og löngun allra til að leyfa ökumönnum að aka og sækja öllum stundum af meiri hörku.

Eftir fundinn sagði Todt að nú yrðu menn að setjast niður og leggjast í rannsóknir á því hvernig vélarnar skuli nákvæmlega vera frá og með 2021. Nýlega útilokaði hann afturhvarf til  V10 eða V12 véla, en það var áður en efnt var til umrædds fundar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert