Hitinn í Barein hentar Ferrari

Hamilton (fremstur), Vettel og Bottas á ferð í Sjanghæ.
Hamilton (fremstur), Vettel og Bottas á ferð í Sjanghæ. AFP

Lewis Hamilton hefur hrundið af stað nokkurs  konar sálfræðihernaði á Ferrari fyrir kappaksturinn í Barein um komandi helgi.

Segir hann að hitinn sem þar bíði ökumanna henti Ferrari mun betur en bílum Mercedes. Víst var mun heitara í veðri í Melbourne þar sem Ferrari fór með sigur af hólmi en Hamilton vann síðan kappaksturinn í Sjanghæ, sem fram fór í mun svalara veðri í fyrradag. Lofthiti var aðeins 12-13°C og brautin í kaldara lagi eftir rigningar dagana og að morgni keppnisdags.

Í Barein verða aðstæður gjörólíkar. Spáð er að lofthitinn fari í allt að 38°C en eitthvað ætti að vera ögn svalara í ljósaskiptunum þegar bæði tímatökur og kappakstur fara fram.

„Ferraribíllinn er mjög góður í heitara lofti. Hækkandi lofthiti hefur aftur á móti ekki lagst með okkur,“ segir Hamilton og kveðst vera að læra betur og betur á dekkin og lofar því betri frammistöðu en í Melbourne. Hann bendir á að í brautinni í Barein séu langir beinir kaflar og þar ætti hið mikla afl Mercedesvélanna að njóta sín.

Vettel varð að hætta keppni á fyrsta hring í Sakhir-brautinni í fyrra vegna vélarbilunar. „Það eru góðar fréttir ef við getum velgt Mercedes aftur undir uggum. Þeir eru afar sterkir og það veit á gott ef við getum glímt við þá,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert