Button í stað Alonso

Jenson Button (t.v.) og Fernando Alonso slá á létta strengi …
Jenson Button (t.v.) og Fernando Alonso slá á létta strengi fyrir kappaksturinn í Suzuka í október sl. AFP

Jenson Button mun hlaupa í skarðið hjá McLaren og keppa í stað Fernando Alonso í Mónakókappakstrinum. Sömu helgi keppir Alonso í mesta kappakstri Bandaríkjanna, Indianapolis 500.

Button, sem er 37 ára, dró sig úr keppni í vertíðarlok í fyrra en tók að sér starf sendiherra McLaren og aðstoðarstarf við bílþróun liðsins. Hann hefur ekki slegið slöku við þjálfun og segist í fantaformi líkamlega vegna æfinga undir keppni í þríþraut.

„Ég er í sjöunda himni yfir því að taka þetta verkefni að mér og ekki hefði verið hægt að velja betri vettvang fyrir endurkomuna, Mónakó´,“ sagði Button. Hann vann Mónakókappaksturinn 2009 og segist munu æfa sig á brautinni á nýja McLarenbílnum í bílhermi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert