Tvöfalt hjá Ferrari

Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen hjá Ferrari settu tvo bestu brautartímana á seinni æfingu dagsins í Sotsjí við Svartahaf. Voru þeir hálfri sekúndu fljótari í förum en Valtteri Bottas og  Lewis Hamilton hjá Mercedes.

Mercedesbílarnir voru fljótastir á mjúku dekkjunum  en dæmið snerist við þegar þau ofurmjúku voru sett undir. Myndaðist bil milli þeirra og Ferrari sem McLarenmönnum tókst ekki að brúa.

Besti hringur Vettels mældist 1:34,120 og Räikkönen var tveimur tíundu á eftir. Bottas var 0,670 á eftir Vettel og Hamilton 0,709 sek. Voru brautartímanir bestu um tveimur sekúndum betri en á fyrri æfingu dagsins.

Bílar Ferrari og Mercedes voru þeir einu sem komust undir 1:35 mínútur en Max Verstappen og Daniel Ricciardo hjá Red Bull voru rúmleag sekúndu lengur í förum en Vettel.

Ferraribílarnir hafa virst öflugir í Sostjí í dag, bæði á einum hring sem og í langlotum. Og það þrátt fyrir að Vettel hafi staðhæft í dag, að brautin væri eins og skraddarasniðin fyrir bíla Mercedes.

Verstappen gat ekki ekið síðustu 20 mínúturnar vegna vélarbilunar. Sjöunda besta tímann átti Felipe Massa hjá Williams, tveimur sekúndum á eftir Vettel. Fyrsta tuginn fylltu svo Nico Hülkenberg hjá Renault, Kevin Magnussen hjá Haas og Sergio Perez hjá Force India.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert