Gáttaður á árangrinum í Rússlandi

Hamilton óskar Bottas til hamingju með sigurinn.
Hamilton óskar Bottas til hamingju með sigurinn. AFP

Formúlu 1 ökuþórinn Lewis Hamilton er gáttaður yfir árangri sínum í rússneska kappakstrinum um helgina. Hamilton hafnaði í 4. sæti á eftir sigurvegaranum, Valtteri Bottas, og Ferrari tvíeikinu Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen.

Hamilton var tæpri hálfri sekúndu á eftir Bottas í tímatökunni og endaði hann rúmri hálfri mínútu fyrir aftan sigurvegarann í kappakstrinum.

„Ég get ekki útskýrt þetta. Við verðum að fara vel yfir helgina til að skilja hvað fór úrskeiðis. Bottas gat keyrt hraðar en ég og ég skil ekki hvers vegna. Við erum svipaðir ökumenn og þetta er furðulegt,“ sagði Hamilton.

Eftir fjórar keppnir er Sebastian Vettel efstur í keppni ökumanna með 86 stig, Hamilton er með 73 stig í 2. sæti og Bottas kemur þar á eftir með 63 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert