Schumacher fær skaðabætur

Michael Schumacher lenti í alvarlegu slysi í lok árs 2013.
Michael Schumacher lenti í alvarlegu slysi í lok árs 2013. AFP

Þýska tímaritið Bunte var í dag dæmt til að greiða þýska ökuþórnum fyrrverandi Michael Schumacher 50 þúsund evrur [5,8 milljónir íslenskra króna], auk lögfræðikostnaðar, í skaðabætur. Blaðið hélt því fram að Schumacher gæti gengið að nýju eftir slys.

Schumacher lenti í al­var­legu skíðaslysi í lok árs 2013 þegar hann féll og lenti með höfuðið á steini. Hon­um var haldið í dái svo mánuðum skipti og ótt­ast var um líf hans lengi vel. Síðan hann kom úr dá­inu hef­ur hann verið í stöðugri umönn­un á heim­ili sínu í Sviss.

Bunte hélt því fram í desember árið 2015 að Schumacher hefði náð undraverðum bata. „Þetta er meira en jólakraftaverk – Michael Schumacher getur gengið að nýju,“ stóð í fyrirsögn blaðsins.

Dómstóll í Hamburg komst að þeirri niðurstöðu að áðurnefnd grein hefði brotið gegn friðhelgi í einkalífi Schumachers og blaðið því dæmt til sektargreiðslu.

„Niðurstaðan var sú að fyrirsögn blaðsins er ekki sönn,“ sagði dómari í málinu. Niðurstaðan byggir á því að Schumacher getur ekki gengið núna og hefði því ekki heldur getað gengið fyrir einu og hálfu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert