Engin töfralausn fyrir Hamilton

Mercedesstjórinn Toto Wolff.
Mercedesstjórinn Toto Wolff. AFP

Mercedesstjórinn Toto Wolff segist ekki geta boðið Lewis Hamilton upp á neina töfralausn til að gera betur í keppni en það sem af er vertíðar. Og engar skýringar sé að finna á því hversu honum vegnaði verr en liðsfélaganum Valtteri Bottas í Rússlandi.

Hamilton skorti bílhraða alla mótshelgina í Sotsjí og endaði í fjórða sæti, því hinu sama og hann náði í tímatökunni, en í henni var hann hálfri sekúndu lengur í förum en keppinautarnir. Í kappakstrinum varð hann svo meira en hálfri mínútu á eftir Bottas, sem vann sinn jómfrúrsigur í formúlu-1.

Hamilton vildi skýra árangurinn á jafnvægisvanda í bílnum eftir tímatökuna og Wolff játar að liðið hafi ekki getað sett bílinn upp eins og ökumaðurinn vildi.

„Við höfum verið að reyna átta okkur á því hvað var að, af hverju okkur tókst ekki að setja bílinn upp þannig að honum liði vel í honum. Það eru engar töfralausnir á því, bara mikil vinna og nostur við smáatriðin. Við verðum að geta lagt honum til það tæki sem þarf til að klára málið í næstu mótum og að því einbeitum við okkur,“ segir Wolff.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert