Firnasterkir í furstadæminu

Ferrariliðið drottnaði í kappakstrinum sem var að ljúka í Mónakó. Kimi Räikkönen leiddi af ráspól en tapaði sætinu til Sebastians Vettel um miðbik kappakstursins að því er virtist vegna undarlegrar herfræði liðsstjóranna.

Räikkönen var greinilega ekki skemmti og skinu vonbrigði hans og gremja úr andlitinu að keppni lokinni. Varð hann annar á eftir Vettel sem styrkir stöðu sína mjög í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna þar sem Lewis Hamilton hjá Mercedes varð aðeins í sjöunda sæti í mark.

Sigurinn er sá 45. á ferlinum og 227. mótssigur Ferrari. Þá er þetta í fyrsta sinn frá í þýska kappakstrinum 2010 að Ferrari á fyrstu tvo bílana í mark. Og þar sem Daniel Ricciardo hjá Red Bull vann sig upp í þriðja sætið og fram úr bæði Valtteri Bottas hjá Mercedes og liðsfélaga sínum Max Verstappen í dekkjastoppunum er þetta í fyrsta sinn eftir 21 mót í röð að Mercedes á ekki mann á verðlaunapalli.

Að öðru leyti var keppni lítil og aðeins spurning hvort óhöpp og bilanir í brautinni myndu stokka skemmtunina upp. Atvik af því tagi höfðu lítil eða engin áhrif.

Óvenjulegasta atvikið átti sér stað þegar 21 hringur var eftir af 78. Í þröngri stöðu niður að undirgöngunum nudduðust Sauberbíll Pascals Wehrlein og McLarenbíll Jensons Buttons saman með þeim afleiðingum að bíll Wehrlein fór upp á rönd og staðnæmdist í þeirri stöðu á öryggisvegg. Slapp hann ómeiddur en við samstuðið brotnaði og framfjöðrun hjá Button sem féll einnig úr leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert