Hamilton: Vettel í forgang

Sebastian Vettel (t.v.) og Lewis Hamilton.
Sebastian Vettel (t.v.) og Lewis Hamilton. AFP

Lewis Hamilton hjá Mercedes segir eftir kappaksturinn í Mónakó augljóst, að Ferrari hafi ákveðið að taka Sebastian Vettel fram yfir  Kimi Räikkönen, eftir að sá fyrrnefndi nýtti sér herfræði til að komast fram úr og sigra.

Miklar umræður hafa átt sér stað um herfræði Ferrari í Mónakó og sýnist sitt hverjum. Ekki eru menn á eitt sáttir hvort beitt hafi verið brögðum til að koma Vettel fram úr Finnanum sem verið hafði fljúgandi alla helgina og þar til að dekkjastoppum kom.

Räikkönen hóf keppni af ráspól og réði ferðinni framan af en kom síðar inn til dekkjaskipta á undan Vettel. Kom hann út úr stoppinu og tafðist í mitt í halarófu bíla. Á sama tíma negldi Vettel hvern hraða hringinn af öðrum fimm hringjum lengur.

Kom Vettel út úr sínu stoppi rétt á undan Räikkönen og hélt forystunni það sem eftir var og ók til síns þriðja sigurs á árinu.

Räikkönen virtist misboðið svo mjög var hægt að lesa frosna andlitsdrætti hans á verðlaunapallinum. Sagði hann útilokað að átta sig á herfræði liðsins en með sigrinum er Vettel nú 25 stigum á undan Hamilton í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Og Ferrari er 17 stigum á undan Mercedes í stigakeppni liðanna. 

Vettel staðhæfði eftir kappaksturinn að engar áætlanir um liðsfyrirmæli hefðu verið til staðar. Hamilton tekur því með fyrirvara og segir að Ferrari hafi nú þegar ákveðið að bakka Vettel upp í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, á kostnað Räikkönen.

„Það er augljóst að Ferrari hefur valið ökumann númer eitt og þeir leggja sig fram um að hámarka útkomu  hans í hverju móti. Það er afar erfitt fyrir bíl númer tvö að komast fram úr forystubílnum nema liðið hafi ákveðið að taka seinni bílinn fram yfir. Það er augljóst að það var gert,“ segir Lewis Hamilton.

Sjálfur varð hann í sjöunda sæti í kappakstrinum sem hann hóf af 13. rásstað vegna misheppnaðrar tímatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert