Alonso vann allt nema kappaksturinn

Jafnvel áður en hinn frægi bandaríski Indy 500 kappakstur hófst hafði Fernando Alonso náð miklum árangri vestanhafs. Farið nánast sigurför, segja bandarískir og evrópskir miðlar.

Um tveggja vikna skeið var hann miðpunktur allrar athygli í Indianapolis en á þau mið reri hann í þeirri von að komast aftur á sigurbraut eftir þrjú misheppnuð ár í formúlu-1.

Eltur af fjölmiðlum, umkringdur unnendum, engin leið að felast og hann tók hlutskipti sínu sem nýliöði í Indy 500 með iðni, stefnufestu og stæl.

Sunnudagurinn reis og möguleikar á einhverjum glæsilegasta sigri í kappakstri þóttu fyrir hendi. Þegar bílarnir 33 tóku af stað tók hann fram úr hverjum á fætur öðrum sem langreyndur í Indy 500 kappakstrinum. Maður með erindi sem lét ekki aftra sér að þreyja keppni á þriðju klukkustund milli veggjanna meðfram brautinni og keppinauta sem allir sóttust eftir frægð og glæstum sigri.  

Á endanum var Honda sökudólgur brottfalls hans, vélin brást, eitthvað sem hann hefur svo oft áður séð og upplifað. Það hefur Hondavélin svo oft áður gert í keppni í formúlu-1. Hin ósanngjarna niðurstaða dregur þó ekkert úr færni Alonso, hugrekki hans, hæfileikum og keppnisfærni, sögðu bandarískir miðlar að keppni lokinni.

Alonso var í slag um toppsætin nær allan kappaksturinn út í gegn og hafði forystu nokkrum sinnum áður en vélin brást er um 10 hringir af 200 voru eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert