Verstappen ærðist

Max Verstappen missti stjórn á skapi sínu þegar honum var tjáð að vegna herfræði hans væri liðsfélaginn Daniel Ricciardo komin fram úr honum.

Svo orðljótur mun Verstappen hafa verið er hann öskraði gegnum talstöðina upp í eyrun á liðsstjóranum Christian Horner að fúkyrðin voru strikuð út úr upptökum sem birtar voru í sjónvarpsútsendingu frá kappakstrinum.

Horner segist ekki ætla að erfa við Verstappen viðbrögð hans. „Þegar þú situr uppi með að liðsfélagi þinn, sem var á eftir þér en er komin fram úr, þá geta menn reiðst,“ segir Horner við franska tímaritið Auto-Hebdo. „Þegar við höfðum farið yfir málið og útskýrt hvað gerðist voru allir sáttir,“ bætti hann við.

Ricciardo komst á verðlaunapall í Mónakó, varð meðal annars á undan báðum ökumönnum Mercedes. Horner segir það þó ekki endilega vera til marks um að erfiðleikar Red Bull séu yfirstaðnir.

Liðið heldur áfram að þróa bílinn og það gerir sér vonir um nýja uppfærslu í keppnisvélinni frá Renault. „Ég hef áhyggjur af Montreal, Bakú og Spielberg. Þar verða stærstu áskoranirnar ásamt Monza. Takist okkur vel upp á þessum brautum ætti seinni helmingur keppnistíðarinnar að vera miklu betri en sá fyrri,“ segir Horner. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert