Renault að semja við Perez

Renaultliðið mun vera komið á kaf í samningaviðræður við mexíkóska ökumanninn Sergio Perez fyrir næsta ár, 2018, að sögn franska íþróttadagblaðsins L'Equipe.

Franski bílsmiðurinn einbeitir sér að því að byggja undirstöður til að komast aftur á frægðarstall í formúlunni. Sá metnaður kallar einnig á að ráða annan topp ökumann til að keppa við hlið Nico Hülkenberg frá og með næsta ári

Að sögn L'Equipe er Perez þó ekki eini ökumaðurinn í skotlínu Renault. Líklegt þykir að Mexíkóinn vilji ekki skuldbinda sig strax, heldur bíða og sjá hvernig ökumannamarkaðurinn þróast. Færi svo að Ferrari framlengi ekki samning Kimi Räikkönen myndu m.a. Perez reyna að koma sér þar á framfæri.

En fari svo að hann ráði sig til Renault yrðu þeir Hülkenberg félagar á ný, en þeir voru samtímis í skipsrúmi hjá Force India bá árunum 2014 til 2016.

Þolinmæði Renault gagnvart breska ökumanninum Jolyon Palmer þverr með hverju mótinu af öðru þar sem hann þykir ekki hafa staðið undir væntingum. Sérstaklega þar sem Hülkenberg hafi sýnt hvað eftir annað að Renaultbíllinn er upp á miklu meira en Palmer hefur verið að ná.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert