65. ráspóll Hamiltons á sigurafmæli

Lewis Hamilton hjá Mercedes „skalf“ þrunginn af tilfinningum er honum var afhentur keppnishjálmur sem brasilíska goðsögnin Ayrton Senna brúkaði á sínum tíma. Hamilton jafnaði árangur Senna með því að vinna sinn 65. ráspól í dag.

Ráspólin vann Hamilton í Montreal í Kanada í dag, en nákvæmlega upp á dag fyrir áratug vann hann sinn fyrsta mótssigur í formúlu-1, einmitt í Gilles Villeneuve brautinni á eyju í Lárusarfljóti í Montreal.

Eftir slaka frammistöðu á æfingum helgarinnar var Hamilton óvinnanlegur í tímatökunni. Að vísu munaði aðeins fjórum þúsundustu á þeim Sebastian Vettel hjá Ferrari þegar Ferrariþórinn hafði lokið tímatilraunum sínum. Hamilton átti eina inni og bætti um betur í henni, setti nýtt met í brautinni, 1:11,459 mínútur.

Í þriðja sæti á rásmarki verður Valtteri Bottas liðsfélagi Hamiltons og Kimi Räikkönen hjá Ferrari fjórði. Í sætum 5 til 10 - í þessari röð - urðu þeir Max Verstappen og Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Felipe Massa hjá Williams, Sergio Perez og Esteban Ocon hjá Force India og Nico Hülkenberg hjá Renault.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert