Räikkönen fljótastur

Lewis Hamilton hjá Mercedes og Kimi Räikkönen hjá Ferrari settu hröðustu hringina á æfingum dagsins í Montreal en þar fer kanadíski kappaksturinn fram um helgina.

Räikkönen átti besta tíma dagsins (1:12,935) þegar upp var staðið en tímar fimm fyrstu á seinni æfingunni voru betri en topptími Hamiltons á fyrri æfingunni (1:13,809).

Reyndar var Hamilton næstfljótastur á seinni æfingunni og ók þá best á 1:13,150, var þá rúmlega 0,2 sekúndum lengur með hringinn en Räikkönen.  

Ökumenn Ferrari virðast ætla verða harðir í horn að taka í Montreal því Sebastian Vettel átti þriðja besta tíma dagsins (1:13,200) og var aðeins 50 þúsundustu úr sekúndu lengur með hringinn en Hamilton.

Valtteri Bottas hjá Mercedes var svo ekki nema 10 þúsundustu úr sekúndu á eftir Vettel með fjórða besta tímann, 1:13,310 mín.  

Í heildina var jafnar var með ökumönnum en í undanförnum mótum því Max Verstappen hjá Red Bull var aðeins 78 þúsundustu á eftir Bottas á 1:13,388 mín.

Í sætum sex til tíu - í þessari röð - urðu svo Felipe Massa hjá Williams (1:14,063), Fernando Alonso hjá McLaren á 1:14,245 mín., Esteban Ocon hjá Force India á 1:14,299 mín., Daniil  Kvyat hjá Toro Rosso á 1:14,461 mín., og Sergio Perez á Force India á 1:14,501 mín.     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert