Fljótastur þótt hann klessti

Verstappen hjá Red Bull ók einnig hraðast á seinni æfingu dagsins sem þeirri fyrri, í Bakú í Aserbaíjdsan. Klessti hann bíl sinn á öryggisvegg undir lok æfingarinnar og skemmdist hann talsvert.

Æfingin var tíðindasöm vegna ítrekaðs útafaksturs og var Verstappen ekki einn um það. Ferrarifélagarnir Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen áttu í erfiðleikum með að halda sig á brautinni því báðir flugu margoft út úr henni en sluppu þó við árekstur. Kvartaði Räikkönen ítrekað undan því að dekkin væru köld.

Verstappen ók einnig hraðast á fyrri æfingunni í Bakú í dag. Næst fljótastur var Valtteri Bottas hjá Mercedes og þriðji Daniel Ricciardo hjá Red Bull, sem var 11 þúsundustu úr sekúndu á eftir Bottas.

Vettel og Räikkönen áttu fjórða og fimmta besta tímann, Lance Stroll hjá Williams þann sjötta besta, Sergio Perez hjá Force India þann sjöunda besta, Daniil Kvyat hjá Toro Rosso þann áttunda besta, Esteban Ocon hjá Force India þann níunda besta og loks Lewis Hamilton þann tíunda besta.

Bilanir háðu ökumönnum McLaren og neyddist Fernando Alonso til að aka út fyrir braut er vélarkraftinn þvar. „Vélin, vélin,“ hrópaði Alonso í talstöðina en síðan kom í ljós að það var gírkassinn sem brást honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert