Bottas tók forystuna

Valtteri Bottas hjá Mercedes ók hraðast á lokaæfingunni fyrir tímatökuna í Bakú í Aserbaíjsan. Annar varð landi hans Kimi Räikkönen og þriðji varð Lewis Hamilton, liðsfélagi hans hjá Mercedes.

Räikkönen var innan við tíunda úr sekúndu á eftir Bottas og Hamilton 0,4 sekúndum.

Vélrænar bilanir háðu bæði Sebastian Vettel hjá Ferrari og Max Verstappen hjá Red Bull sem ók hraðast á æfingum gærdagsins.

Vettel lenti í vanda strax í byrjun og eftir langa dvöl í bílskúrnum hugðist hann gera aðra tilraun en var skipað að koma beint inn að bílskúr. Varð hann á endanum í tólfta sæti.  Að sögn talsmanns Ferrari fór þrýstingur af vökvakerfi bílsins. 

Eins og á seinni æfingunni í gær lauk Verstappen þessari æfingu áður en hún var úti vegna vélrænnar bilunar. Hafði hann kvartað undan því að eitthvað hegðaði vélin sér öðru vísi en ætti að vera og tíu mínútum síðar gafst hún upp.

Daniel Ricciardo hjá Red Bull setti fjórða besta tímann, Esteban Ocon hjá Force India þann fimmta besta og Verstappen hafnaði í sjötta sæti á lista yfir hröðustu hringi. Williamsfélagarnir Felipe Massa og Lance Stroll urðu í sjöunda og níunda sæti en milli þeirra varð Daniil Kvyat hjá Toro Rosso. Tíunda besta hringinn átti svo Sergio Perez hjá Force India.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert