Verður að hemja tilfinningar sínar

Sebastian Vettel ekur yfir marklínuna í Bakú, rétt á undan …
Sebastian Vettel ekur yfir marklínuna í Bakú, rétt á undan Lewis Hamilton. AFP

Sigurvegarinn í kappakstrinum í Aserbaíjan, Daniel Ricciard, er á því að fyrrverandi liðsfélagi hans, Sebastian Vettel, þurfi að geta sett lok á tilfinningatank sinn. Eru það viðbrögð hans við atvikinu milli Vettels og Lewis Hamilton í Bakú.

Ricciardo hlaut forystu í kappakstrinum er Vettel tók út 10 sekúndna stoppvíti fyrir „hugsanlega hættulegan“ akstur. Er Hamilton hægði lítillega á sér í 15. beygju til að undirbúa endurræsingu rakst bíll Vettels aftan í bíl Hamiltons.

Taldi Vettel að Hamilton hafi verið með brögð í tafli og reynt að „bremsuprófa“hann. Brást hann ókvæða við, ók upp að hlið Mercedesbílsins og sýndi hnefann og beygði svo inn í bíl Hamiltons þannig að hjól þeirra skullu saman.

Ricciardo og Vettel voru liðsfélagar hjá Red Bull árið 2014. „Sennilega hugsar Seb ekki áður en hann framkvæmir. Það er líklega afleiðing ástríðu hans og afrekshungurs. Hann þarf stundum að loka á tilfinningar sínar. Ég ber mikla virðingu fyrir grimmd hans og ást á íþróttinni sem verður að ástríðu og á stundum sóknargrimmd. Mér geðjast að því, en við höfum séð að tryllist á stundum,“ sagði Ricciardo við BBC-stöðina.

Ricciardo telur líka að Vettel hafi verið „yfirspenntur“ er hann var að búa sig undir endurræsingu.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert