Vettel játar sök

Sebastian Vettel á ferðí Bakú.
Sebastian Vettel á ferðí Bakú. AFP

Sebastian Vettel hefur játað að bera einn alla ábyrgðina á umdeildum átökum þeirra Lewis Hamilton í kappakstrinum í Bakú í Aserbaíjan. Vegna afsökunarbeiðni hans hefur Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) látið málið niður falla.

Fulltrúar FIA funduðu formlega um atvikið í höfuðstöðvum FIA í París í byrjun vikunnar og sóttu bæði Vettel og Ferraristjórinn Maurizio Arrivabene hann. Vettel, sem varð þrítugur sl. mánudag,  taldi að Hamilton hefði beitt sig óheiðarlegum brögðum og svaraði fyrir sig með því að aka inn í bíl enska keppinautarins.

Eftirlitsdómarar kappakstursins hreinsuðu hins vegar Hamilton og sögðu hann engum rangindum hafa beitt rétt fyrir endurræsingu kappakstursins. Gerðu þeir Vettel 10 sekúndna stoppvíti og hafnaði hann í fjórða sæti, en einu þó á undan Hamilton sem tafðist í ferðum vegna lausrar höfuðhlífar.

Á fundinum í París lýsti Vettel yfir „fullri ábyrgð“ á atvikinu og bað FIA „innilegrar afsökunar“ á framferði sínu. Niðurstaða varð að FIA kaus að aðhafast ekkert frekar í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert