Hraðasti hringur frá upphafi

Lewis Hamilton setti besta tímann á fyrri æfingu dagsins í Steyrfjöllum í Austurríki en þar fer næsti formúlukappakstur fram á sunnudag. Aldrei hefur náðst jafn góður tími í brautinni.

Hamilton var tveimur tíundu úr sekúndu fljótari í förum en Max Verstappen hjá Red Bull sem um tíma virtist ætla aka hraðar en akstursmistök komu í veg fyrir það.

Hamilton ók hringinn á  1:05,975 mínútum en Verstappen á 1:06,165. Þriðja besta tímanum náði Valtteri Bottas, liðsfélagi Hamiltons hjá Mercedes, eða 1:06,375 mín. Bæði hann og Vestappen áttu erfitt með að halda sig á brautinni og hið sama er að segja um Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen hjá Ferrari. Allir óku þeir út úr eða snarsneru bílum sínum í fyrstu beygju brautarinnar.

Daniel Ricciardo, sigurvegarinn í Bakú, átti fimmta besta hringinn og Räikkönen þann sjötta besta.

Athygli vekur að McLaren kom báðum bílum sínum í hóp 10 hröðustu á æfingunni og munar þar um nýja vélarútgáfu . Áttu Stoffel Vandoorne (1:07,283) og Fernando Alonso (1:07,510) sjöunda og níunda besta tíma æfingarinnar.

Í áttunda sæti varð Daniil Kvyat hjá Toro Rosso og tíunda besta tímann setti Esteban Ocon (1:07,511) hjá Force India.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert