Bottas hrósar Mercedes-bíl og -liði

Valtteri Bottas sveif með skýjum af ánægju eftir að hafa hreppt ráspól austurríska kappakstursins í dag. Öðru sinni á árinu hefur hann keppni fremstur, fyrra skiptið var í Barein og var það fyrsti ráspóll ferils hans.

Bottas var yfir sig ánægður yfir meðfærileika Mercedes-bílsins en ráspólstími hans (1:04,251) var jafnframt brautarmet í Spielberg. Var hann 42 þúsundustu á undan Sebastian Vettel hjá Ferrari. Hann sagði bílhraðan hafa aukist með hverri æfingu og síðar hverjum hring í tímatökunni.

„Hann varð betri og betri, við náðum að setja hann ánægjulega stöðugan upp fyrir tímatökuna. Sjálfstraust mitt undir stýri hans jókst með hverjum hring en í þessari braut þarf maður á því að halda í háhraðabeygjunum,“ sagði Bottas í dag.

„Jafnvægið var það gott að við snertum varla á bílnum milli aksturslota í tímatökunni og hann fór bara hraðar og hraðar. Sem lið höfum við skilað frábæru verki um helgina við að bæta bílinn. Hann var fínn meðfæris,“ sagði Bottas.

Hann bætti því svo við að hann byggist við „góðum bardaga“ við Vettel og svo mætti búast við að liðsfélagi hans Lewis Hamilton ynni sig út úr gírkassavítinu og blandaði sér í keppnina um toppsætin. Hann hefur keppni af áttunda rásstað vegna vítisins.

„Áhugaverð keppni er í vændum og takmarkið er auðvitað ekkert minna en að vinna kappaksturinn. Ég get vart beðið morgundagsins,“ sagði Bottas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert