Vettel bætti brautarmetið

Sebastian Vettel bætti brautarmetið í Spielberg í Austurríki á lokaæfingunni fyrir tímatökuna síðar í dag. Ók hann hraðast, var tæplega 0,3 sekúndum fljótari en Lewis Hamilton sem varð fyrir bremsubilun seint á æfingunni.

Vettel ók hringinn á 1:05,092 mínútum en gamla metið, sem Hamilton setti í gær, var 1:05,483 mín. Skiptust þeir á að setja hraðasta hring fram eftir æfingunni en á endanum var Vettel sterkari. Ók Hamilton á 1:05,361 mínútum og var því einnig undir eigin gamla meti.

Hamilton fer inn í tímatökuna með það á bakinu að þurfa sæta afturfærslu um fimm sæti á rásmarki morgundagsins vegna gírkassaskipta. Hann varð fyrir því í miðjum klíðum í morgun, að bremsudiskur brotnaði í frambremsum. Var það skrifað á tæknimenn liðsins fremur en gallaðan íhlut.

Valtteri Bottas og Kimi Räikkönen fylgdu liðsfélögum sínum eftir í þriðja og fjórða sæti og þar á eftir komu svo Max Verstappen og Daniel Ricciardo hjá Red Bull.

Fyrsta tuginn á lista yfir hröðustu hringi fylltu svo þeir - í þessari röð - Kevin Magnussen og  Romain Grosjean hjá Haas, og Daniil Kvyat og Carlos Sainz hjá Toro Rosso.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert