Bottas stóðst sókn Vettels

Valtteri Bottas hjá Mercedes var í þessu að vinna austurríska kappaksturinn í Spielberg í Steyrufjöllum. Stóðst hann harða sókn Sebastians Vettels hjá Ferrari sem nálgaðist óðfluga á síðustu hringjunum og vann sinn annan sigur á ferlinum og 69. mótssigur Mercedes frá upphafi vega.

Sömuleiðis háðu Daniel Ricciardo hjá Red Bull og Lewis Hamilton mikla rimmu um þriðja sætið eftir að Hamilton dró Ricciardo upp á síðustu 10 hringjunum. Munaði minnstu að Hamilton kæmist fram úr í atlögu að Ricciardo á næst síðasta hring. Þótt báðir væru með gatslitin dekk náði Red Bull þórinn meiru út úr sínum og hélt sætinu.

Komst Ricciardo með þessu í fimmta sinn á verðlaunapall í níu mótum og ber hæst sigur hans í síðasta kappakstri, í Bakú í Azerbaíjan.  Liðsfélagi hans Max Verstappen hrósaði  ekki happi og féll úr leik í fimmta skipti í sjö síðustu mótum. Var hann fórnarlamb ákeyrslu Daniils Kvyat hjá Toro Rosso á Fernando Alonso hjá McLaren í fyrstu beygju en bíll Alonso rakst í bíl Verstappen og urðu skemmdir á báðum það miklar að ekki varð haldið áfram keppni.

Lengi vel ríkti spenna yfir því hvort Bottas hefði þjófstartað og tók það eftirlitsdómara mótsins ótrúlega langan tíma að komast að niðurstöðu. Var það ekki fyrr en eftir að tæpur þriðjungur var af keppni  var af staðin að þeir úrskurðuðu að Bottas hefði ekki haft rangt við þótt sjónvarpsvélar höfðu gefið það til kynna.

Kimi Räikkönen glímdi við mótorstillingar en fékk ekki snúið öllum tökkum á stýrishjólinu sem skyldi. Endaði hann í fimmta sæti. Í því sjötta varð Frakkinn Romain Grosjean hjá Haas og er það besti árangur liðsins í ár.  Annar Frakki, Esteban Ocon hjá Force India, varð einnig í stigasæti en hann ók yfir marklínuna áttundi, einu sæti á eftir liðsfélaga sínum Sergio Perez. 

Níundi varð svo Felipe Massa hjá Williams og liðsfélagi hans Lance Stroll tíundi og þar með í stigasæti annað mótið í röð og það þriðja í heild. Árangur þeirra er athyglisverður eftir tóm vandræði á æfingum og tímatöku í gær og fyrradag. Hóf Massa keppni í 17. sæti og Stroll í því átjanda. Græddu þeir á árekstrum í fyrstu beygju kappakstursins og voru allan tíman í stigasæti. Var Massa síðustu ökumanna til að taka dekkjastopp en það gerði hann á 48. hring af 71.

Vettel eykur forystu sína í titilslagnum

Með úrslitunum hefur Vettel aukið forystu sína í titilkeppninni úr 14 stigum í 20. Hefur hann aflað  171 stigs en Hamilton 151 og Bottas 136. Ricciardo jók á muninn milli þeirra Räikkönen og er han nú 24 stig, 107:83. Perez er í sjötta sæti með 50 stig, Verstappen í sjöunda með 45, Ocon með 39 í áttunda, Carlos Sainz hjá Toro Rosso í níunda með 29 og tíundi er Massa með 22 stig.

Mercedes styrkti aftur á móti stöðu sína í keppni liðanna þar sem ökumönnum þeirra tókst að halda hvor um sig Ferrariþór fyrir aftan sig. Mercedes er með 287 stig en Ferrari 254. Red Bull er langt á eftir í þriðja sæti með 152, þá Force India með 89 og Williams með 40.     


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert